Samkvæmt FAIR viðmiðunum eiga rannsóknagögn sem safnað er með krafti almannafjár að vera aðgengileg öllum, bæði fræðafólki og almenningi, til að tryggja betri nýtingu og örugga langtímavarðveislu gagna.

​Í FAIR viðmiðum um umsýslu vísindagagna (FAIR Guiding Principles for Scientific Data Management and Stewardship) sem birt voru árið 2016 er lögð áhersla á að rannsóknagögn sem safnað er með krafti almannafjár séu aðgengileg öllum til lengri tíma og uppsett þannig að ekki aðeins fólk geti fundið og skilið þau heldur einnig vélar. Er þar átt við að vélar geti fundið, lesið og greint gögn með engri eða takmarkaðri aðkomu fólks, en það er ein af lykilforsendum vélræns náms (machine learning). Gervigreind þessi gengur út á að nýta vinnslugetu tölva til að annast eða aðstoða við úrvinnslu gagna og þannig mæta aukinni þörf á sjálfvirkni í mati á flóknum og viðamiklum gögnum á netinu. Frá útgáfu FAIR viðmiðanna hafa Evrópusambandið og fjölmargir alþjóðlegir fjármögnunaraðilar og háskólar lýst yfir stuðningi við viðmiðin og tekið mið af þeim í stefnumótun sinni um opinn aðgang að vísindagögnum.

Samkvæmt FAIR viðmiðunum eiga vísindagögn að vera „eins opin og mögulegt er en eins lokuð og nauðsynlegt er“. Með þessu er gert ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika þar sem setja má viðkvæm gögn í öruggan og læstan aðgang. Gögn geta þannig verið í takmörkuðu aðgengi en samt sem áður talist FAIR.

Hvað felst í FAIR viðmiðunum?

FAIR viðmiðin fela í sér 15 atriði sem lýsa á skýran og mælanlegan hátt hvernig stuðla má að endurnýtingu vísindagagna. Viðmiðin eru flokkuð í fjóra meginþætti sem vísa til þess að rannsóknagögn eiga að vera finnanleg (findable), aðgengileg (accessible), gagnvirk (interoperable) og endurnýtanleg (reusable). Upphafsstafir enskra heita þáttanna mynda skammstöfunina FAIR. Eins og áður sagði er mark­miðið með notkun þessara viðmiða að bæði vélar og fólk geti auð­veld­lega fundið og skilið gögn­in.

Share