Aðgangsstýring

Það er ljóst að ekki öll rannsóknagögn henta fyrir opinn aðgang, sérstaklega ef gögn innihalda viðkvæmar upplýsingar. Af þeim sökum er gert ráð fyrir því í FAIR viðmiðunum að setja megi sum gagnasöfn í stýrðan aðgang þar sem aðeins lýsigögn og fylgiskjöl eru í opnum aðgangi en aðgangur að gagnaskrá er læstur. Þannig getur gagnasafn í heild sinni teljist FAIR þrátt fyrir að aðgangur að gagnaskránni sjálfri sé takmarkaður.

Aðgangsstýring GAGNÍS  

GAGNÍS býður upp á nokkrar tegundir aðgangsskilyrða fyrir gagnasöfn. Gagnaeigendur velja þá aðgangsstýringu sem hentar best fyrir gögnin í samráði við GAGNÍS. Val á aðgangsstýringu veltur á inntaki gagnanna, þ.e. hversu viðkvæmt viðfangsefni þeirra er, og hve mikill hætta er á persónurekjanleika. Það sem er sammerkt með öllum aðgangsskilyrðum GAGNÍS er að lýsigögn og fylgiskjöl eru ávallt í opnum aðgangi og öllum aðgengileg. Annað sem er sammerkt með skilyrðunum er að öll bein persónuauðkenni (s.s. nöfn, kennitölur, heimilisföng) hafa verið fjarlægð úr gögnunum.  

 

Tegund aðgangs Lýsing á aðgangi Lýsigögn Fylgiskjöl  Gagnaskrá
Opinn aðgangur 1 Aðgengilegt öllum Opið Opið Opið
Opinn aðgangur 2 Aðgengilegt öllum en þarfnast auðkenningar Opið Opið Opið
Stýrður aðgangur 1

Þarfnast leyfi höfunda(r)

Opið Opið Lokað
Stýrður aðgangur 2 Aðgengilegt skilgreindum notendum Opið Opið Lokað
Tímasettur aðgangur   Aðgengilegt að loknu skilgreindu tímabili Opið Opið Lokað

Opinn aðgangur  

Meginskilyrði fyrir dreifingu gagna í opnum aðgangi er að gögnin innihaldi engar viðkvæmar eða persónurekjanlegar upplýsingar. Opinn aðgangur 1 er einfaldasta aðgangsskilyrðið en í því felst að allir geta hlaðið niður gagnaskrá og fylgiskjölum án nokkurra takmarkana. Notendur þurfa einungis að samþykkja notendaskilmála GAGNÍS þegar gagnasafni er hlaðið niður. Sömu skilyrði eiga við um Opinn aðgang 2 en til viðbótar er krafist auðkenningar í gagnagrunnskerfi GAGNÍS. Opinn aðgangur 1 og 2 þykja heppileg aðgangsskilyrði fyrir flest rannsóknagögn, sérstaklega ef markmið með dreifingu þeirra er að sem flestir endurnýti gögnin og vitni í þau.

 

Stýrður aðgangur

Gögn sem sett eru í stýrðan aðgang eru að hluta til varin vegna viðkvæms eðlis þeirra. Aðgangur að lýsigögnum og fylgiskjölum er öllum opinn en gagnaskrá er vistuð á öruggum stað í læstum aðgangi. Til þess að geta hlaðið niður gagnaskrá í Stýrðum aðgangi 1 þarf notandi að skrá sig inn í Dataverse kerfi GAGNÍS og óska eftir leyfi gagnaeiganda fyrir því að sækja gögnin. Í Stýrðum aðgangi 2 þarf notandi sömuleiðis að uppfylla ákveðin skilyrði sem ákvörðuð eru fyrirfram af gagnaeigendum í samráði við GAGNÍS.

Notendur sem sækja um aðgang að gögnum í stýrðum aðgangi geta einnig verið beðnir um að veita upplýsingar um fyrirhugaða notkun gagnanna og undirrita notkunarsamning og yfirlýsingu um þagnareið. Upplýsingar um allar takmarkanir sem gilda um gögn og hvernig nálgast má gagnaskrá í stýrðum aðgangi eru að finna í lýsigögnum gagnasafns.      

 

Tímasettur aðgangur   

Í sumum tilvikum kann að vera þörf á því að læsa aðgangi að gagnaskrá yfir ákveðið tímabil (embargo). Gögn sem sett eru í tímasettan aðgang eru að hluta til óaðgengileg um ákveðinn tíma, allt frá nokkrum vikum yfir í nokkur ár. Lýsigögn og fylgiskjöl eru þá í opnum aðgangi en aðgangur að gagnaskrá er læstur (öllum óaðgengileg) fram að ákveðinni dagsetningu sem ákvörðuð er af gagnaeigendum í samráði við GAGNÍS. Skilgreina má hvort gagnaskrá verði öllum opin eða í takmörkuðu aðgengi eftir að tímabilinu líkur.   

Eins og á við um önnur aðgangsskilyrði GAGNÍS er nauðsynlegt að ganga endanlega frá gagnaskrá, fylgiskjölum og lýsigögnum áður en gefa má gagnasafnið út og úthluta því DOI númeri.