Undirbúningur gagna

Þegar rannsóknagögn eru sett í opinn aðgang er mikilvægt að búa um þau þannig að aðrir eigi auðvelt með að skilja gögnin, setja þau í samhengi og framkvæma upplýsta greiningu á þeim. 

Með því að styðjast við FAIR viðmiðin við undirbúning gagna fyrir opinn aðgang verður auðveldara fyrir aðra að skilja tildrög rannsóknar og hvernig gagnasöfnun fór fram. Fyrsta skref er jafnan að hreinsa gagnaskrá og að gera mat á persónurekjanleika. Á grundvelli þeirra upplýsinga er tekin ákvörðun um hvernig aðgangsstýringu að gögnunum skuli vera háttað. Í kjölfarið eru lýsigögn og fylgiskjöl tekin saman og leyfissamningur við GAGNÍS undirritaður. Áður en nokkuð er gert er mikilvægt að huga að því hver á höfundarrétt yfir gögnunum. Í mörgum tilvikum getur verið um fleiri en einn eiganda að ræða og þá þarf undirskrift allra aðila.