Leggja til gögn

Mælt er með því að framleggjendur gagna kynni sér eftirfarandi upplýsingar áður en undirbúningur gagna hefst og gögnin eru send inn til gagnaþjónustunnar.

Hvernig gögn tekur GAGNÍS við? 

GAGNÍS tekur við og veitir aðgang að félagsvísindagögnum í víðum skilningi, t.d. úr könnunum, prófum, opinberri tölfræði, viðtölum og rýnihópum. Gögnin spanna öll svið félags- og menntavísinda, allt frá þjóðfélagshræringum og stjórnmálum til einstaklingsbundinna lífsskilyrða, en einnig gögn frá öðrum fræðasviðum s.s. hug- og heilbrigðisvísindum. Engin viðmið eru um aldur gagnaTekið er á móti gögnum sem má endurnýta m.a. í rannsóknum og kennslu.

Eins og stendur miðast þjónusta GAGNÍS við megindleg gögn en boðið verður upp á hýsingu eigindlegra gagna í náinni framtíð. Í millitíðinni er áhugasömum bent á CESSDA Data Management Guide en þar eru að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um undirbúning megindlegra og eigindlegra rannsóknagagna fyrir opinn aðgang. Einnig má skoða grein Mannheimer og félaga (2019) en þar er fjallað um ýmis mál varðandi hýsingu eiginlegra gagna í opnum aðgangi.

Hvernig er ferlið þegar gögn eru send inn til GAGNÍS?

1. Gagnaeigendur senda fyrstu upplýsingar um gögnin og staðfesta höfundarrétt og að gögnin innihaldi engin bein persónuauðkenni.  

2. GAGNÍS sendir gagnaeigendum skjöl til útfyllingar (t.d. eyðublað fyrir lýsigögn). Gagnaeigendur hefja undirbúning gagna fyrir opinn aðgang. GAGNÍS veitir leiðsögn og aðstoð eftir þörfum.     

3. Gagnaeigendur senda útfyllt skjöl ásamt gagnaskrá til gagnaþjónustunnar. GAGNÍS hefur samband við gagnaeigendur að yfirferð lokinni. Eigendur bregðast við þeim athugasemdum sem kunna að vera, eða gefa GAGNÍS leyfi til að gera nauðsynlegar breytingar á gögnunum.   

4. Gagnaeigendur og GAGNÍS ákveða í sameiningu hvernig aðgangi að gögnunum skuli vera háttað.  

5. Leyfissamningur við GAGNÍS er undirritaður.

6. Gagnaþjónustan gengur frá gagnasafninu og gefur það út í Dataverse gagnagrunni GAGNÍS. DOI númer er sent til gagnaeigenda. 

Athugið að aðeins er hægt að afhenda doi númer eftir að gagnasafn hefur verið gefið út í gagnagrunni GAGNÍS.  

Atriði sem vert er að hafa í huga áður en hafist er handa við að undirbúa gögn fyrir opinn eða stýrðan aðgang:  

 

1. Höfundarréttur 

Hver er eigandi gagnanna? Eigandinn skrifar undir leyfissamning við GAGNÍS. Ef um fleiri en einn eiganda er að ræða þarf undirskrift allra aðila. 

2. Gagnaskrá

Hver er staðan á gagnaskrá(m). Er búið að hreinsa gagnaskrá(r) og er hún á viðeigandi skráarsniði? Hvernig útgáfustýring (version control) verður notuð við hreinsun gagnanna?  

3. Persónurekjanleiki 

Fela gögnin í sér upplýsingar sem gætu verið rekjanlegar til einstaklinga? Er búið að fjarlægja öll bein persónuauðkenni úr gögnunum? Hvað með óbein persónuauðkenni, þarf að gera einhverjar ráðstafanir vegna þeirra (t.d. afmá eða dulkóða upplýsingar í gagnaskrá). Er etv. meira gagn af því að halda sumum mikilvægum upplýsingum (óbeinum auðkennum) eftir í gagnaskránni og setja gagnasafnið í stýrðan (læstan) aðgang fremur en opinn aðgang?  

4. Lýsigögn og fylgiskjöl

Eru til nægar upplýsingar um gögnin eða upprunalega rannsókn svo hægt sé að taka saman nauðsynleg lýsigögn og fylgiskjöl fyrir gögnin? Ef ekki, hvar má nálgast frekari upplýsingar um gögnin? Hver getur veitt nánari upplýsingar um gögnin? Eru fylgiskjöl á viðeigandi skráarsniði?