Um GAGNÍS

Gagnaþjónustan GAGNÍS tekur við rannsóknagögnum, hýsir þau í opnum aðgangi og tryggir vísindasamfélaginu og almenningi aðgengi að þeim til framtíðar án endurgjalds.

GAGNÍS - gagnaþjónusta vísindarannsókna á Íslandi (DATICE - Icelandic Data Service) er opinber þjónustuaðili Samtaka evrópskra gagnavarðveislusafna í félagsvísindum (CESSDA ERIC) á Íslandi. Gagnaþjónustan sem staðsett er á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var stofnuð við lok árs 2018 og tekur við og veitir aðgang að gögnum í víðum skilningi, meðal annars úr könnunum, mælingum, kerfisbundnum skráningum, viðtölum og rýnihópum. Gögnin eru opin öllum, fræðafólki, nemendum, sérfræðingum, fjölmiðlafólki og almenningi og nýtast í rannsóknum sem spanna vítt svið fræðigreina. Starfsemi GAGNÍS tekur mið af alþjóðlega viðurkenndum FAIR viðmiðum um umsýslu vísindagagna (FAIR Guiding Principles for Scientific Data Management and Stewardship) en í því felst að gagnasöfn skuli vera finnanleg (findable), aðgengileg (accessible), gagnvirk (interoperable) og endurnýtanleg (reusable). 

Uppbygging gagnaþjónustunnar er svar við kröfum hins alþjóðlega vísindasamfélags um opin vísindi og miðlun þekkingar sem sköpuð hefur verið í krafti almannafjár og samræmist HÍ26 stefnu Háskóla Íslands og stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs

    Meginmarkmið GAGNÍS

    Meginmarkmið GAGNÍS eru að sækjast eftir og safna rannsóknagögnum og gera þau aðgengileg öllum, bæði fræðafólki og almenningi, að auðvelda til muna aðgengi, finnanleika og nýtingarmöguleika vísindagagna á Íslandi, hvort sem er til kennslu, frekari rannsókna eða stefnumótunar. Einnig að bjóða aðgengilegar lausnir í langtímavarðveislu rannsóknagagna.

     

    Helsta þjónusta GAGNÍS er

    • Að taka við rannsóknagögnum og setja þau í opinn aðgang

    • Að veita ráðgjöf til þeirra sem senda inn gögn um frágang og skráningu gagna

    • Að veita ráðgjöf til notenda um endurnýtingu gagna sem eru í opnum aðgangi hjá GAGNÍS

    Image