Notendaskilmálar GAGNÍS

Eftirfarandi notendaskilmálar eiga við um öll gögn sem eru í opnum aðgangi hjá GAGNÍS.

 

Samningurinn er gerður á milli þín og Háskóla Íslands til að veita þér („notanda“) rétt til að sækja og nota gagnasöfn sem eru í umsjón GAGNÍS – gagnaþjónustu félagsvísinda á Íslandi, í samræmi við eftirfarandi skilmála.

Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:

„Aðrir skilmálar“ merkir alla frekari skilmála sem eiga við um notkun notanda á einu eða fleiri gagnasöfnum, eins og notanda er tilkynnt um í 5. gr. samnings þessa.

„Ábyrgðaraðili“ merkir þann aðila sem ber ábyrgð á kerfinu og gefur út notendaleyfi, í þessu tilfelli GAGNÍS f.h. Háskóla Íslands.

„Fjármögnunaraðili gagnasöfnunar“ merkir þann einstakling, stofnun eða fyrirtæki sem fjármagnaði söfnun og/eða gerð gagnasafns. Fjármögnunaraðili gagnasöfnunar er tilgreindur í lýsigögnum viðkomandi gagnasafns og/eða í sérstökum skilmálum sem eiga við um gagnasafnið.

„Fjármögnunaraðili þjónustu“ merkir þann einstakling, stofnun eða fyrirtæki sem fjármagnar vistun gagna í gagnasafni GAGNÍS. Fjármögnunaraðili þjónustu er tilgreindur í lýsigögnum viðkomandi gagnasafns og/eða í sérstökum skilmálum sem eiga við um gagnasafnið.

„Gagnateymi“ merkir í tengslum við tiltekið gagnasafn, ábyrgðaraðila, fjármögnunaraðila gagnasöfnunar, og/eða upphaflega og síðari höfunda, rétthafa eða framleggjendur gagnanna.

„Lýsigögn“ merkir allar viðbótarupplýsingar eða bókfræðilegar upplýsingar um eitt eða fleiri gagnasöfn, eins og notanda er tilkynnt um endrum og eins.

„Persónuupplýsingar“ hefur sömu merkingu og kemur fram í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90 frá 2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þ.e. gögn sem tengjast persónugreindum eða persónugreinanlegum einstaklingi, með tilliti til annarra upplýsinga sem koma úr útgefnu efni.

„Upphaflegur höfundur eða framleggjandi gagna“ merkir þann einstakling, stofnun eða fyrirtæki sem upphaflega safnaði, bjó til eða lagði fram efnið í gagnasafnið og/eða sem er með hugverkarétt á gagnasafninu. Upphaflegur höfundur eða framleggjandi gagna fyrir tiltekið gagnasafn er auðkenndur í lýsigögnum viðkomandi gagnasafns og/eða í sérstökum skilmálum sem eiga við um gagnasafnið.

 

Ég („notandinn“) samþykki eftirfarandi skilmála fyrir aðgangi að og notkun gagna í gagnasafni GAGNÍS:

1. Að nota gagnasöfnin eingöngu í samræmi við notendaleyfi þetta og tilkynna GAGNÍS skriflega um sérhvert brot gegn skilmálum þessum eða um sérhverja misnotkun á gagnasöfnunum sem ég verð vör/var við.

2. Að tilgangur notkunar minnar og afritunar á sérhverjum hluta gagnasafnanna sé eingöngu vegna rannsókna sem ekki eru í hagnaðarskyni, til kennslu eða fyrir nám mitt sem einstaklingur. Sé tilgangur minn að nota gagnasöfnin í heild eða að hluta í hagnaðarskyni mun ég leita eftir skriflegu samþykki frá GAGNÍS sem mun leita leyfis frá rétthafa/rétthöfum sem um ræðir eða leyfisveitanda ef því er að skipta.

3. Að leyfi þetta felur ekki, á neinn hátt, í sér framsal hugverkaréttinda frá gagnateymi eða öðrum rétthöfum til mín.

4. Að leyfið og aðgangur að gagnasöfnum séu veitt af gagnateyminu án nokkurrar ábyrgðar eða bótaskyldu.

5. Að hlíta öllum öðrum skilmálum sem GAGNÍS tilkynnir mér um endrum og eins og gætu átt við um aðgang að eða notkun á tilteknu efni innan gagnasafnanna eða tilteknu gagnasafni. Tilkynning um aðra skilmála getur borist mér með rafrænum hætti, til dæmis með sprettiglugga við niðurhal á einni eða fleiri gagnaskrám. Samþykki mitt á öðrum skilmálum er áskilið áður en ég fæ aðgang að umræddum gögnum.

6. Að veita eingöngu skráðum notendum hjá GAGNÍS, sem hafa hlotið notendaleyfi og samþykkt aðra skilmála, aðgang að gagnasöfnunum, að hluta til eða í heild, eða efni sem unnið er úr gagnasöfnunum.

7. Að tryggja að aðgangsleiðir að gögnunum (svo sem aðgangsorð) séu öruggar og ekki gefnar upp til þriðja aðila nema fyrir liggi sérstök skrifleg heimild eða leyfi frá GAGNÍS.

8. Að halda ávallt trúnað um upplýsingar úr gögnunum sem snúa að einstaklingum og/eða heimilum þar sem slíkar upplýsingar teljast ekki opinberar. Að nota gögnin ekki til að reyna að fá eða álykta um upplýsingar sem tengjast tilteknum einstaklingi/einstaklingum eða heimili/heimilum sem hægt er að auðkenna, og halda því ekki fram að hafa fengið eða ályktað um slíkar upplýsingar. Þar að auki að halda trúnað um upplýsingar sem varða, eða eru fengnar frá, stofnun/stofnunum eða fyrirtæki/fyrirtækjum sem kemur fyrir í gagnsöfnunum. Þetta felur í sér notkun eða tilraun til að nota gagnasöfnin til að skerða eða brjóta á annan hátt gegn trúnaði um einstaklinga, heimili, stofnanir eða fyrirtæki.

9. Að tilgreina í sérhverju útgefnu efni (hvort sem það er prentað, rafrænt eða birt með öðrum hætti) sem byggir að hluta til eða í heild á gögnunum frá GAGNÍS, upphaflega og síðari höfunda, framleggjendur eða rétthafa gagnanna og GAGNÍS sem útgáfuaðila. Að ég mun vísa í gagnasöfnin með þeim hætti sem tilgreindur er í fylgiskjölum eða lýsigögnum gagnasafnsins eða sem mér var gert kunnugt um.

10. Að afhenda GAGNÍS bókfræðilegar upplýsingar um útgefið efni (hvort sem það er prentað, rafrænt eða birt með öðrum hætti) sem eru byggð alfarið eða að hluta til á gagnsöfnunum.

11. Að meðlimir gagnateymisins megi geyma og vinna úr persónuupplýsingum sem ég gef upp fyrir auðkenningu, tölfræðilega vinnslu og til að hafa umsjón með þjónustunni. Upplýsingar sem hefur verið aflað í tengslum við aðgang og notkun að gagnasöfnum GAGNÍS, verða eingöngu sendar til: 1) rétthafa gagnasafnsins í tengslum við notkun mína á gagnasafninu ef um er að ræða brot gegn þessu notendaleyfi, eða ef rétthafi gagnasafnsins óskar eftir upplýsingum um notkun á gögnunum, 2) minnar stofnunar eða fyrirtækis þegar þess er þörf, og 3) ef fjármögnunaraðili rannsóknarinnar krefst staðfestingar á því að ég hafi afhent GAGNÍS gögnin. GAGNÍS kann einnig að deila nafnlausri og uppsafnaðri tölfræði með höfundum, framleggjendum og rétthöfum gagna um notkun gagnsafna þeirra.

12. Að láta GAGNÍS vita af öllum villum sem finnast í gagnasöfnunum.

13. Að allar persónuupplýsingar sem ég gef upp séu réttar, eftir því sem ég best veit.

14. Að ég muni við lok gagnavinnslu eða rannsókna minna (eða fyrr ef meðlimur gagnateymisins óskar eftir því) bjóða fram sérhver ný gagnasöfn sem verða til úr efninu sem er notað, eða með notkun gagnanna ásamt öðrum gögnum, til deilingar í gagnasafni GAGNÍS, á hentugu sniði. Framlögð gagnasöfn sem þannig verða til munu innihalda hæfileg fylgiskjöl til að hægt sé að gera nýju gagnasöfnin aðgengileg fyrir aðra.

15. Að ég muni við lok gagnavinnslu eyða öllum afritum af gögnunum, þar með talin tímabundin afrit, prentuð afrit, afrit til einkanota, öryggisafrit, afleidd gagnasöfn og öll rafræn afrit, þar á meðal afrit á flytjanlegu sniði eins og á geisladisk/DVD-disk/minniskubb.

16. Ég skil að brot á sérhverju ákvæði þessa samnings muni leiða til tafarlausrar uppsagnar á aðgangi mínum að allri þjónustu gagnateymisins, ýmist varanlega eða tímabundið, samkvæmt ákvörðun aðila gagnateymisins, og kann að leiða til málsóknar gegn mér. Ég skil að í samræmi við það sem heimilt er má aðili í gagnateyminu segja upp þessu leyfi eða breyta skilmálum þess, með 30 daga fyrirvara. Misbrestur eða töf á að nýta sér réttindi eða úrræði sem tilgreint er í þessum samningi eða í lögum telst ekki vera afsal réttinda eða úrræða eða afsal annarra réttinda eða úrræða.