Hvers vegna opin gögn?
Aðgengi að gögnum er lykillinn að framþróun þekkingar, nýsköpun og frekari hagnýtingu rannsókna.
Gögn í opnum aðgangi fela í sér mikinn ávinning fyrir gagnaeigendur, notendur gagna og fræðafólk. Með því að veita aðgengi að áður óaðgengilegum gögnum skapast nýir möguleikar á þverfaglegum vísindarannsóknum og úrvinnslu, og samtúlkun með alþjóðlegum vísindagögnum. Opin gögn gefa einnig möguleika á að skoða aðra fleti en þegar hafa verið skoðaðir og geta verið kveikja að nýjum og áhugaverðum rannsóknaspurningum. Einnig má nýta fyrirliggjandi gögn til undirbúnings fyrir ný rannsóknaverkefni, s.s. til að áætla mögulegar niðurstöður og áhrifastærðir þeirra og við gerð langtímaáætlana um öflun gagna.
Aðgangur að rannsóknagögnum er einnig mikilvægur fyrir rannsóknarstarf ungs fræðafólks og nemendur en nýta má flest gagnasöfnin í opnum aðgangi hjá GAGNÍS við undirbúning og gerð lokaverkefna og í kennslu.
Með opnu og auðveldu aðgengi að rannsóknagögnum aukast möguleikarnir á að nýta betur en hingað til íslensk gögn í rannsóknum, kennslu, fjölmiðlun og opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku.
Önnur rök snúa að því að opin rannsóknagögn auka gæði og gegnsæi vísinda þar sem þau auðvelda fræðafólki, og almenningi, að sannreyna niðurstöður rannsókna og leggja mat á gæði þeirra. Loks má nefna fjárhagsleg og siðferðisleg rök sem snúa helst að því að þar sem opinbert fé er notað til að safna rannsóknagögnum sé eðlilegt og sjálfsagt að þau séu gerð aðgengileg öðrum, ekki síst til að nýta fjármunina sem best.
Helstu ávinningar af því að setja rannsóknagögn í opinn aðgang:
- Er grunnur að framþróun rannsókna og þekkingar
- Stuðlar að ábyrgari nýtingu rannsóknagagna
- Tryggir fræðafólki og almenningi aðgang að vísindagögnum til framtíðar án endurgjalds
- Eykur sýnileika íslenskra rannsókna innan- og utanlands
- Býður upp á ýmis tækifæri til þverfræðilegs samstarf
- Gefur kost á því að nýta fyrirliggjandi gögn til undirbúnings fyrir ný rannsóknaverkefni
- Veitir yfirsýn yfir gögn sem þegar hefur verið safnað svo ekki verði um tvíverknað að ræða með tilheyrandi aukakostnaði
- Býður upp á aukna möguleika á notkun íslenskra gagnasafna til kennslu og þjálfunar
- Er örugg og skipuleg langtímavarðveisla gagna
- Er í samræmi við alþjóðlegar stefnur og staðla um meðhöndlun vísindagagna
- Uppfyllir síauknar kröfur vísindarita og styrkveitenda um opið aðgengi að gögnum