Fylgiskjöl

Fylgiskjöl gera öðrum kleift að skilja gögnin, setja þau í samhengi og framkvæma upplýsta greiningu á þeim. Þau innihalda mikilvægar upplýsingar m.a. um framkvæmd rannsóknar og söfnun og vinnslu gagna. Ýmsar upplýsingar kunna nú þegar að finnast um upprunalega rannsókn, s.s. í vísindagreinum eða rannsóknarskýrslum, en mikilvægt er að taka þær saman á kerfisbundinn og aðgengilegan hátt og láta þær fylgja með gögnunum. Því betri upplýsingar sem fylgja gögnunum því líklegra er að aðrir endurnýti gögnin og vitni í þau. 

Eftirfarandi fylgiskjöl eru nauðsynleg þegar setja á gögn í opinn aðgang

1. Lýsing á úrtaki og framkvæmd  

Lýsing á úrtaki og framkvæmd rannsóknar (methodology report) nær yfir markmið og hönnun rannsóknar, úrtak og aðferðir við söfnun og vinnslu gagna. Dæmi um atriði sem koma yfirleitt fram í þessu skjali eru upplýsingar um:

 • Úrtaksgerð (sampling)
 • Aðferð(ir) við gagnasöfnun
 • Tímabil gagnasöfnunar

 

2. Kóðunarbók 

Kóðunarbók (codebook) má útbúa á marga vegu og umfang hennar fer eftir eðli og umfangi rannsóknar/gagnaskrár. Kóðunarbækur innihalda yfirleitt að lágmarki upplýsingar um:

 • Heiti allra breyta og lýsingar á þeim  
 • Nánari útskýringar á sérkóðuðum breytum (t.d. þegar samfelldri breytu hefur verið breytt í flokkabreytu).  
 • Skilgreiningar á sérhæfðum orðum/hugtökum og skammstöfunum
 • Kóðun brottfallsgilda    
 • Upplýsingar um þær aðgerðir sem ráðist var í til að draga úr persónurekjanleika gagna (ef þörf var á því)
 • Vigtun gagna (weighting) (ef þörf var á því)
 • Ef margar breytur eru í gagnaskrá getur verið gagnlegt að flokka breytur saman eftir inntaki og áherslum (variable groups) þannig að betri yfirsýn fáist yfir innihald gagnaskrár 

3. Spurningalistar, viðtöl og önnur matstæki

Oftast er um að ræða spurningalista og/eða viðtalsramma sem hafa verið hannaðir sérstaklega fyrir rannsókn. Matstæki sem eru í eigu annarra fara hins vegar ekki í opinn aðgang nema með leyfi höfunda(r). Það sama gildir um sérhæfð matstæki sem ekki mega fara í almenna dreifingu, s.s. þunglyndiskvarða, vitsmunapróf, lespróf o.þ.h. Þá er aftur á móti eðlilegt að umfjöllun um slík tæki fylgi með gögnunum, eða vísað sé í heimildir sem hjálpa gagnanotendum að átta sig á inntaki og gæði matstækjanna.

Mikilvægt er að huga vel að samræmi á milli allra upplýsinga sem koma fram í fylgiskjölum og gagnaskrá, t.d. að fjöldi og heiti breyta séu ávallt þau sömu í öllum skrám og skjölum, eða í það minnsta gefa yfirlit yfir það misræmi sem kann að vera þar á milli.   

Annað efni sem getur fylgt gögnum í opinn aðgang 

Ýmislegt annað efni getur fylgt gögnum í opinn aðgang, að því gefnu að ekki er um brot á höfundarrétti að ræða, að efnið tengist gögnunum með beinum hætti og teljist gagnlegt fyrir tilvonandi notendur. Dæmi um skjöl af þessu tagi eru:

 • Verkefna- og rannsóknarskýrslur   
 • Gagnastjórnunaráætlun (data management plan)
 • Rannsóknaráætlun  
 • Samþykkis- og upplýsingablöð til þátttakenda   
 • Viðtalskort (interview cards) 
 • Upplýsingar um rannsóknarkvata (incentives)
 • Keyrsluskrá/skipanaskrá (syntax/script)