Leyfissamningar við eigendur gagna

GAGNÍS og framleggjandi gagnanna semja um aðgangsskilyrði fyrir dreifingu þess efnis sem sett er í opinn aðgang við afhendingu gagna og nota til þess leyfissamning sem er bindandi lagagerningur. Í samningnum er fjallað um hvernig nýta má gögnin og fylgiskjöl, til að tryggja að farið sé að lögum og reglum um höfundarrétt og persónuvernd. Í sumum tilvikum er þörf á sérsniðnum samningum t.d. þegar efni gagna telst viðkvæmt og/eða persónugreinanlegt.

Í öllum samningum sem gerðir eru við GAGNÍS kemur fram að gagnaeigendur haldi áfram höfundarrétti sínum og sé einnig frjálst að dreifa gögnunum með öðrum leiðum. 

Hver á eignarrétt yfir gögnunum? 

Yfirleitt á höfundur upprunalega verksins höfundarréttinn, hvort sem það er einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun. Ef verki er lokið sem hluta af starfi heldur vinnuveitandinn yfirleitt höfundarrétti verksins. Sá sem er fenginn til að búa til verk fyrir hönd einhvers annars heldur höfundarrétti á því verki, nema annað sé tekið fram, t.d. í skriflegum verkkaupasamningi. Þegar gögn eru búin til úr ýmsum áttum, eða ef rannsókn er fjármögnuð af mörgum stofnunum eða fyrirtækjum, eiga allir hlutaðeigandi aðilar sameiginlegan höfundarrétt yfir gögnunum. Í þeim tilvikum verður að biðja alla viðkomandi aðila um leyfi fyrir því að setja gögnin í opinn aðgang og fylgibréf sem staðfestir samkomulagið skal fylgja gögnunum þegar þau er afhent gagnaþjónustunni.

Grundvallaratriði í samningum GAGNÍS  

 

Framleggjandi gagna staðfestir að:

1. Framleggjandi sé eigandi gagnanna eða hafi löglegt leyfi frá höfundi/höfundum þeirra (ef um fleiri en einn höfund er að ræða þarf undirskrift allra aðila).    

2. Gagnasafnið brjóti ekki á nokkurn hátt gegn höfundarrétti annarra. 

3. GAGNÍS sé veitt endurgjaldslaust leyfi til vörslu gagnanna.

4. GAGNÍS fái leyfi til að dreifa gögnunum endurgjaldslaust og gera breytingar á þeim ef þörf krefur.

5. Að gögnin innihaldi ekki bein persónuauðkenni.  

Sérsamningar   

Í sumum tilvikum er þörf á sértækum samningi, s.s. þegar gögn eiga að fara í stýrðan aðgang og skilgreina þarf ákveðnar takmarkanir eða skilyrði fyrir notkun gagnanna.